Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun Fjársýslu ríkisins um breytingu á gildisdagsetningum á tímabilum í virðisaukaskatti

Ernst & Young ehf.
Anna Kristín Traustadóttir
Borgartúni 30
105 Reykjavík

Reykjavík 2. febrúar 2016
Tilv.: FJR15090071/16.2.5

Efni: Úrskurður ráðuneytisins vegna stjórnsýslukæru […] á synjun Fjársýslu ríkisins á erindi félagsins.

Þann 24. september 2015 barst ráðuneytinu erindi Önnu Kristínar Traustadóttur, löggiltum endurskoðanda, f. h. […], með beiðni um að skrifstofa skattamála skoði synjun Fjársýslu ríkisins á beiðni félagsins um breytingu á gildisdagsetningum á tímabilum í virðisaukaskatti. Ráðuneytið tekur erindið til afgreiðslu á grundvelli hinnar almennu kæruheimildar 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsatvik:
Málavextir eru þeir að með skattframtali [..] árið 2015 fylgdi leiðréttingarskýrsla virðisaukaskatts. Í henni kom fram mismunur á virðisaukaskatti fyrir tímabilið júlí - ágúst 2014, inneign að fjárhæð kr. 11.136.224 og skuld fyrir tímabilið nóvember - desember 2014 að fjárhæð kr. 9.601.861. Þegar leiðréttingarskýrslan var afgreidd reiknuðust inneignarvextir á inneignina að fjárhæð 137.708 kr. en dráttarvextir á skuldina að fjárhæð 618.187 kr.

Framangreint þykir kæranda vera í hæsta máta óeðlilegt þar sem félagið hafi átt inni hærri fjárhæð en skuldin var þegar hún kom til. Anna Kristín segir félagið hafa verið í sambandi við skattstofuna og Fjársýslu ríkisins en ekki fengið lausn á málinu. Fjársýsla ríkisins benti félaginu á að hafa samband við skrifstofu skattamála í Fjármála- og efnahagsráðuneytinu ef óskað væri eftir áliti æðra stjórnvalds.

Umsögn tollstjóra:
Í umsögn tollstjóra, sem barst ráðuneytinu þann 16. nóvember 2015, kemur fram að inneign tímabilsins júlí-ágúst 2014 að fjárhæð kr. 11.136.224, hafi fengið gildisdagsetninguna 25. ágúst en það var sá dagur sem ríkisskattstjóri afgreiddi leiðréttingarskýrsluna. Skuld vegna of hárrar endurgreiðslu myndaðist vegna tímabilsins nóvember-desember 2014 að fjárhæð kr. 9.601.861 og fékk hún gildisdagsetninguna 5. febrúar 2015, sem var gjalddagi tímabilsins. Skuldin, sem nam með dráttarvöxtum kr. 10.220.048, var greidd með skuldajöfnuði inneignarinnar þann 25. ágúst 2015 og gírógreiðslu kr. 533.896 þann 2. september 2015.

Að mati tollstjóra lýtur ágreiningurinn að ákvörðunum gildisdagsetninga og því að dráttarvextir hafi reiknast á skuld tímabilsins nóvember-desember 2014 þegar inneign var til á sama tíma á tímabilinu júlí-ágúst 2014. Af gögnum málsins megi ráða að kærandi telji að skuldina hefði átt að greiða með inneigninni án þess að til myndunar dráttarvaxta kæmi, þar sem aðeins væri um tilfærslu á milli tímabila innan sama árs að ræða.

Ákvæði 1. mgr. 28. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, tekur að mati tollstjóra ótvírætt af skarið um að dráttarvexti beri að greiða vegna þeirrar skuldar sem myndaðist á tímabilinu og reiknuðust á skuldina frá 18. febrúar 2015 eða þeim degi sem félaginu var ofgreidd inneignin og þar til hún var greidd með skuldajöfnuði 25. ágúst 2015 og greiðslu 2. september 2015. Þá segi í 4. mgr. 28. gr. laga nr. 50/1988 að ef aðili eigi rétt á endurgreiðslu skv. 25. gr. laganna og sé hún ekki innt af hendi innan mánaðar frá lokum frests samkvæmt sömu grein skuli ríkissjóður greiða aðila dráttarvexti, sbr. 1. mgr., af þeirri fjárhæð sem endurgreiða skuli.

Tollstjóri kemst að þeirri niðurstöðu í umsögn sinni að umþrættar kröfur hafi fengið gildisdagsetningar í samræmi við ofannefnd lagaákvæði og reglur. Því séu engin skilyrði fyrir hendi til að haga þeim á annan hátt.

Umsögn ríkisskattstjóra:
Umsögn ríkisskattstjóra barst ráðuneytinu þann 12. janúar 2015. Í henni kemur fram að endurákvörðun virðisaukaskatts kæranda fyrir framangreind uppgjörstímabil ársins 2014 var framkvæmd hinn 24. ágúst 2015 á grundvelli erindis hans í formi leiðréttingarskýrslu, RSK 10.26, sem barst ríkisskattstjóra þann 22. maí 2015. Á grundvelli leiðréttingarskýrslunnar voru einnig framkvæmdar þann 24. ágúst 2015 breytingar á uppgjörstímabilunum janúar-febrúar, mars-apríl og maí-júní vegna ársins 2014. Engar breytingar voru gerðar á uppgjörstímabilunum september-október 2014. Endurákvörðun vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar og júlí-ágúst 2014 kvað á um inneign en endurákvörðun vegna tímabilanna mars-apríl, maí-júní og nóvember-desember 2014 kvað hins vegar á um greiðslu.

Þá kemur ennfremur fram í umsögn ríkisskattstjóra að við framangreinda endurákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 24. ágúst 2015, var ekki beitt álagi, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, við þá skuld sem hafði myndast á uppgjörstímabilinu nóvember-desember 2014 vegna hærri inneignar á tímabilinu júlí-ágúst. Það var í samræmi við verklagsreglur ríkisskattstjóra frá 6. september 1991 (tilv. 331/91). Gildisdagsetning vegna endurákvörðunar fyrir tímabilið júlí-ágúst var ákvörðuð 24. ágúst 2015, þ.e. sama dag og endurákvörðun var framkvæmd, en hefði strangt tiltekið átt að vera 22. ágúst 2015, með hliðsjón af móttöku erindisins þann 22. maí 2015.

Þá bendir ríkisskattstjóri að lokum á að inneignarvextir þeir sem tilgreindir eru í kæru kæranda, að fjárhæð kr. 137.708, vegna tímabilsins júlí-ágúst 2014, virðast ekki hafa verið ákvarðaðir í kjölfar framangreindra breytinga ríkisskattstjóra, heldur þann 19. nóvember 2014 í kjölfar frumálagningar virðisaukaskatts tímabilsins þann 18. nóvember 2014 en upphafleg virðisaukaskattsskýrsla þess tímabils barst nokkru eftir gjalddaga tímabilsins, eða hinn 30. október 2014.

Umsögn Fjársýslu ríkisins:
Umsögn Fjársýslu ríkisins barst ráðuneytinu þann 10. desember 2015. Í henni kemur fram að leiðréttingarskýrsla […] sé dagsett þann 23. september 2015 en þar sem færslur ríkisskattstjóra séu skráðar í TBR-kerfið þann 24. ágúst 2015 sé gengið út frá því að skýrslan hafi borist til ríkisskattstjóra þann 23. eða 24. ágúst 2015.

Samkvæmt Fjársýslunni gildir almennt í endurútreikningi vaxta að horft sé á hvert og eitt tímabil sem sjálfstæða einingu innan virðisaukaskatts og hækkanir og lækkanir séu færðar inn á gildisdegi tímabils. Í þeim tilvikum þegar langt er liðið frá lokaskiladegi tímabils eða leiðréttingarskýrsla berst löngu eftir lokadag síðasta tímabils álagningarárs þá meti skattstjóri hvort inneignir fái færsludagsetningu sem gildisdag eða hvort notaður sé gildisdagur hvers og eins tímabils.

Samkvæmt færslum í TBR kerfinu þá hafa verið færðar eftirfarandi skattbreytingar:

Tímabil Br. fjárhæð Færsludagur Gildisdagur Vextir vegna breytingar
2014 08 -3.914 24.08.2015 24.08.2015 0
2014 16 87.820 24.08.2015 05.06.2014 13.476
2014 24 1.196.335 24.08.2015 05.08.2014 156.355
2014 32 -11.136.224 24.08.2015 24.08.2015 0
2014 40 0 05.12.2014 0
2014 48 9.601.861 24.08.2015 05.02.2015 618.187

Miðað við ofangreint og það að í þessu tilfelli hafi skattstjóri ákveðið að inneignir fái færsludag sem gildisdag sér Fjársýslan ekki ástæðu til að gera frekari breytingar.

Forsendur og niðurstaða:
Í IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er kveðið á um uppgjörstímabil, gjalddaga, álag, kærur o.fl. Ákvæði um dráttarvexti vegna síðbúinnar greiðslu skattaðila á virðisaukaskatti og vegna síðbúinnar endurgreiðslu af hálfu ríkissjóðs er að finna í 28. gr. laganna. Þannig kemur fram í 1. mgr. hennar að ef virðisaukaskattur er ekki greiddur innan mánaðar frá gjalddaga skuli greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er. Sama gildi ef endurgreiðsla hefur verið of há. Eftir 4. málsl. 4. mgr. 28. gr. sömu laga skal ríkissjóður greiða dráttarvexti í samræmi við 1. mgr. af endurgreiðslu skv. 25. gr. laganna ef hún er ekki innt af hendi innan 21 dags frá lokum frests samkvæmt sömu grein.

Með vísan til framangreinds er ekki fallist á með kæranda að beiting dráttarvaxta og aðferð við skuldajöfnun hjá innheimtumanni ríkissjóðs hafi brotið gegn lögum. Inneignir þær sem mynduðust við leiðréttingu á uppgjöri félagsins í virðisaukaskatti hefðu ekki átt að fá sömu gildisdagsetningar og gjalddagar viðkomandi virðisaukaskattstímabila líkt og kærandi heldur fram, þar sem enga slíka reglu er að finna í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Þvert á móti leiðir af 1. mgr. 25. gr. laganna að dráttarvextir leggjast á endurgreiðslu ef hún er ekki innt af hendi innan 21 dags frá gildisdagsetningu þeirri sem ákvörðuð er af ríkisskattstjóra í samræmi við verklagsreglur þar um. Það er enda í samræmi við almenn sjónarmið í skattarétti að gjaldandi skuli ekki geta verið betur settur með því að skila skýrslum of seint og fá þannig reiknaða dráttarvexti á inneign sína hjá ríkissjóði aftur í tímann.

Úrskurðarorð:
Niðurstaða Fjársýslu ríkisins er staðfest.



Fyrir hönd ráðherra









Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum